Umhverfisþættir

Grænar vörur eru betri fyrir þig og
umhverfið eins er mikil umhverfisvernd
fólgin í að vanda til verka

Loftalagsáhrif Húsasmiðjunnar

Húsasmiðjan leggur mikið upp úr að bjóða viðskiptavinum sínum grænar lausnir frá ábyrgum birgjum og er með skýr markmið í átt að vistvænni framtíð. Leitað er nýrra leiða í átt að sjálfbærni m.a. með minni sóun, bættum ferlum innanhúss, minna vistspori í virðiskeðjunni, nýjungum á sviði byggingarvara og strangari kröfum í umhverfisvottunum. 

Mannvirkjageirinn er talinn ábyrgur fyrir um 40% af heildarútblæstri á heimsvísu. Þar af eru byggingarefni ábyrg fyrir 45% af heildarlosun nýbygginga og því augljóst að framþróunar er krafist. Því tekur Húsasmiðjan ábyrgð sína alvarlega sem stór söluaðili á byggingarefnum. Umhverfisáhrif starfseminnar eru því töluverð, mest í umfangi 3 eða í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) úr vörum og þjónustu fyrirtækisins. Húsasmiðjan tilgreinir nú fleiri flokka í umfangi 3 en áður hefur verið gert og markmiðið er að fjölga flokkunum sem bókhaldið nær utanum á komandi árum.

Samfélagsuppgjör Húsasmiðjunnar, byggir á Environmaster hugbúnaði Klappa við útreikninga og bókhald á helstu UFS þáttum (umhverfis-, félags- og stjórnarháttum). Við útreikninga á umhverfisuppgjöri er stuðst við „The Greenhouse Gas Protocol“ en umfang 3 er enn ekki að fullu talið en við vinnum í átt að telja til fleiri þætti sem tilheyra því umfangi bæði á fyrri og síðari stigum.

Umfang 1 tekur saman beina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Húsasmiðjunnar afmarkast umfang 1 við losun frá bifreiðum og tækjum í eigu eða rekstri Húsasmiðjunnar.

Umfang 2 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem tengd er raforkunotkun og notkun á heitu vatni. Losun af þessu tagi á sér ekki stað innan marka starfsemi fyrirtækisins og telst því til óbeinnar losunar.

Umfang 3 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðju Húsasmiðjunnar. Sú losun, sem talin er fram í uppgjöri þessu, er losun vegna úrgangs, ásamt því að stefnt er að því að koma inn losun frá flugferðum á vegum fyrirtækisins.

• Greint er frá losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum.

Markmið og árangur í umhverfisþáttum sjálfbærni

Úrgangsmálin og hringrásarhagkerfið

Íslenska Gámafélagið sér um sorphirðu að langstærstum hluta, Dagar sjá um Egilsstaði, Kubbur um Ísafjörð og Vestmannaeyjar. Öll gögn fara til Klappa sem reiknar alla losun sem kemur frá Sorpi. Gott bókhald leiðir til betra gagnsæis svo hægt sé að bregðast við með aðgerðum. Í lok ársins 2022 voru gerðir nýjir sorpferlar og fara þeir í innleiðingu 2023. Til að styðja við hringrásarhagkerfið þá var gerður samningur við Tempru sem endurvinnur hreint frauðplast frá okkur en allt að 30% af þeirra vöru getur komið frá endurvinnslu. En Húsasmiðjan kaupir einangrun í hús frá þeim sem selt er í verslunum og með því er frauðplasti komið í ábyrgan farveg. Hingað til hefur það verið urðað þar sem engin úrræði hafa verið á móttöku þessa tegundar plasts. Í byrjun verður þó eingöngu tekið frauðplast af höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Það verður vigtað og talið fram í bókhaldskerfi Klappa.

Í þessari ferlavinnu var komið á samstarf við PureNorth sem tekur á móti lituðu umbúðaplasti. Þeir nota umhverfisvæna orkugjafa og er jarðvarminn þar mikilvægur við hreinsun á plastinu áður en búin er til hrávara úr því sem þeir selja til innlendra og erlendra fyrirtækja.

Við rekstur Húsasmiðjunnar fellur til ógrynni af efni og leitum við leiða til þess að koma þeim í ábyrgan farveg sem og að huga til hringrásarhagkerfisins eins og með “industrial symbiosis”, þar sem úrgangur eða hliðarafurðir verða að hrávöru í annarri framleiðslu. Stefnt er að lágmarka notkun auðlinda og halda efni í umferð með því að gera við, endurnýta, endurframleiða, endurvinna og nýta deilihagkerfi. Mikil áhersla í hringrásarhagkerfinu er að verðmæti tapi ekki gæðum og því mikilvægt að huga að ábyrgri endur hagnýtingu vöru eins og þegar frauðplast sem verndar vörur geti orðið að einangrun húsa sem standa í tugi ára.

Umhverfisstefna

Húsasmiðjan gerir sér grein fyrir ábyrgðarhlutverki sínu í gegnum virðiskeðjuna og
skuldbindur sig til að vinna með markvissum aðgerðum að því að lágmarka umhverfisáhrif
starfsemi sinnar. Um leið að vera leiðandi fyrirtæki fyrir byggingariðnað sem auðveldar
viðskiptavinum að fara í vistvænar framkvæmdir.

Markmið:

1. Vera leiðandi fyrir vistvænar byggingar á Íslandi.

2. Bjóða upp á hagkvæma, umhverfisvænni kosti í öllum helstu vöruflokkum.

3. Minnka vistspor fyrirtækisins.

4. Skapa heilbrigt og gefandi starfsumhverfi.

5. Setja reglulega mælanleg og tímasett markmið í umhverfismálum.

6. Minnka kolefnislosun um 40% fyrir árið 2030.

Aðgerðir:

1. Auðveldum viðskiptavinum okkar val á vistvænum vörum, sem lúta að reglum þess vottunarkerfis sem unnið er eftir hverju sinni.
Sem þýðir stöðuga þróun þar sem vottunarkerfi eru tekin reglulega í endurmat.

2. Efla og auka samstarf við birgja sem huga markvisst að umhverfi sínu, eru vottaðir og framleiða vörur með umhverfisvænum hætti.

3. Sýna fram á hagkvæmni í rekstri, innleiðing ferla sem halda sóun í lágmarki. Leita stöðugt leiða til að draga úr orkunotkun, minnka úrgang og koma þeim úrgangi sem til fellur í endurvinnsluferla og með því minnka vistspor fyrirtækisins. 

4. Vinna markvisst að fræðslu og þjálfun starfsmanna með aukinni þekkingu og metnaði á umhverfismálum, þekkingu og reynslu deilt með viðskiptavinum okkar.

5. Rekstrarákvarðanir eru teknar með það að leiðarljósi að nýta náttúruauðlindir skynsamlega. Hvetja alla hagaðila til virðingar fyrir umhverfinu, að þeir setji sér raunhæf mælanleg markmið í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum sínum.

6. Leiðir að minnkandi kolefnislosun í umfangi 1 og 2 eru að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og fara í orkusparandi aðgerðir.
Í umfangi 3 verður farið í að minnka magn úrgangs og auka hlutfall flokkaðs úrgangs í 90% til og með 2025.

Grænar vörur

Húsasmiðjan hefur breitt vöruúrval í öllum flokkum byggingavara sem uppfylla þurfa mismunandi vottanir eins og t.d. í Svaninum, BREEAM og LEED.
Á heimasíðunni er að finna upplýsingar þess efnis undir Græn vara en þar er að finna EPD skjöl eða umhverfisyfirlýsingu vörunnar, ásamt þeim vottunum sem varan hefur. Unnið hefur verið að því að auka sýnileika allra fylgiskjala á vefnum til að auka aðgengi viðskiptavina og auðvelda þeim að velja vistvænni kost. Sjá nánar um grænar vörur hér.

Húsasmiðjan skilgreinir þær vörur sem uppfylla ákveðin en mismunandi skilyrði með tilliti til umhverfisþátta “grænar vörur” til þess að einfalda fyrir viðskiptavininum. Þetta er mjög breitt svið en allt vörur sem fara mildari höndum um umhverfi og heilsu okkar.

• Þetta eru vörur sem eru leyfðar til notkunar í matvælaiðnaði, vistvænum - og svansvottuðum byggingum.

• Vottaðar vörur eins og Svanurinn, Blái engillinn, Bio, Evrópublómið, Oeko Tex, PEP ecopassport, Gev – Emicode, o.s.frv.

• Timbur úr sjálfbærum skógum, með FSC og PEFC stimplinum.

• Vörur úr endurunnum efnum sem og orkusparandi rafmagnsvörur og ljósaperur (LED).

Virðiskeðjan

Stærstu vöruflokkarnir okkar:

Húsasmiðjan er stór söluaðili á timbri og síðan 2016 hefur verið sett mikið kapp á að kaupa allt timbur úr sjálfbærum skógum með FSC (Forest Stewardship Council) og PEFC (Programme for the Endorsement of Forest Certification) vottun.

Til þess að geta selt vottað timbur þarf rekjanleika sem tryggir rétta meðhöndlun efnisins frá framleiðanda til viðskiptavinar.
Í gildi var undanþága um rekjanleika vottun til notkunar í Svansvottaðar byggingar en Húsasmiðjan staðfestir nú FSC og PEFC vottanir með kvittunum frá söluaðila.

Síðan þessi undanþága féll úr gildi hefur verið unnið að því að fá rekjanleikavottun á timbursölu en þess er að vænta á árinu 2023. Það er mikilvægt að geta sýnt fram á rekjanleikavottun timbursins og að engin óumhverfisvæn eða röng meðhöndlun hafi orðið áður en það kemur í hendur viðskiptavinar, tryggja þarf gagnsæi og rekjanleika í virðiskeðjunni.

Kambstálið er um 92% úr endurunnu stáli, og kemur með umhverfisyfirlýsingu vörunnar sem nýta má í lífsferilsgreiningar (LCA) í umhverfisvottunum.

Birgjar Húsasmiðjunnar koma langflestir frá Evrópu þar sem kröfur um umhverfisvottanir og rekjanleika eru oft strangari en gerist hér á landi. Einnig skiptir gæði vörunnar máli, að varan sé eftir stöðlum og hægt sé að gera við hana en það er einn stór umhverfisþáttur, að halda henni inni í hringrásinni sem lengst.

Virðiskeðjan Málningin frá Jotun inniheldur engin eiturefni og er gott dæmi þar sem strangar kröfur umhverfisvottana vernda ekki eingöngu umhverfið heldur einnig heilsu fólks.

Lady málningin inniheldur engin leysiefni né efni sem eru hættuleg umhverfinu sem og rotvarnarefni t.d. formaldehýð.
Málningin inniheldur ekki mýkingarefni (þalöt og bisphenól) sem getur verið hormónatruflandi og þá sérstaklega hjá litlum börnum.
Málningin er einnig endingarbetri sem er gott fyrir umhverfið því ekki þarf að mála eins oft, sem kemur út í sparnað fyrir viðskiptavininn.

Orthex hefur sjálfbærni sem grundvallaratriði í stefnumótun og ákvarðanaferlum hjá Orthex. Meirihluti af hráefninu er endurvinnanlegt og fyrirtækið stefnir að kolefnishlutleysi árið 2030. Samfélagsleg ábyrgð, umhyggja fyrir starfsfólki og öryggi þess ásamt siðferðislegum viðskiptaháttum eru helstu frammistöðuvísar fyrirtækisins.

Mascot fatnaður tekur fyrir hringrásarhagkerfið og framleiðir fatnað úr endurunnum efnum sem og tryggir starfsmönnum sínum örugg og heilbrigð vinnuskilyrði svo eitthvað sé nefnt.

Philips ljósaframleiðandinn hugar að hringrásarhagkerfinu og notar ónýt fiskinet og geisladiska sem þeir vinna í plastþræði og þrívíddarprenta ljósakúpla og lampa. Þeir hafa aukið staðbundna framleiðslu með litlum lager og framleiða orkusparandi perur o.fl.

MantaNorth einingahúsin eru byggð úr CLT einingum úr furu og greni, með loftskiptibúnaði, þreföldu gleri, rafmagnsgólfhita stýrt í appi, klæðningu sem er hitameðhöndluð fura einnig eru þau hagkvæm í rekstri.

Miðlægi vörulagerinn okkar tók upp samstarf við Silfraberg á árinu 2022, til að sporna við plastnotkun og útblástri vegna plöstunar á vörubrettum.
Með notkun vélstrekkifilmunnar minnkar árleg plastnotkun við filmun bretta um 26,2% og 60.9% með notkun handstrekkifilmunnar. Áætlað er að plastnotkun minnki um 473 kg á ári. Árangurinn er strax sýnilegur þar sem ending á plastfilmurúllu er mun betri sem er mikil vinnu- og efnahagsleg hagræðing.

Plastið er að hluta til úr endurunnu plasti eða um 30% sem telur í minna kolefnisspori. Með þessari einföldu aðgerð minnkar kolefnisspor Húsasmiðjunnar um 1.230 kg á ári vegna minni plastnotkunar án þess að það komi niður á stöðugleika brettanna.

Þess má geta að birgjar eru farnir að taka mun meiri ábyrgð á sinni kolefnislosun t.d. með minnkun umbúða og samdrætti í notkun plasts í umbúðum sínum. Sem dæmi eru þýskir reiðhjóla framleiðendur hættir að nota frauðplast og notast eingöngu við pappa sem og Philips sem hefur einfaldað sínar umbúðir og útilokað allt plast í þeim.

Árlegur samdráttur um 37 tCO2í

Allir lyftarar Húsasmiðjunnar eru rafknúnir og skapa því ekki staðbundna mengun ásamt þeirri kolefnislosun sem fylgir bruna á jarðefnaeldsneyti. Beðið er eftir komu fyrsta rafknúna kranabíl landsins og mun Húsasmiðjan geta tryggt viðskiptavinum sínum flutning byggingarefna með endurnýjanlegum orkugjöfum alla leið frá uppskipun á verkstað á höfuðborgarsvæðinu.

Það má gera ráð fyrir að þessi rafvörubíll keyri um 2.600 km á mánuði að jafnaði og með því er komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda upp á u.þ.b. 3 tonn koltvísýringsígilda (CO2í) eða 37 tonn á ári. En það á eingöngu við keyrslu en kraninn er einnig knúinn rafmagni sem kemur í veg fyrir staðbundna mengun á verkstað.

Húsasmiðjan hefur tekið þátt í fjölda
umhverfisvottaðra verkefna en, BREEAM-, LEED- og Svansvottun eru þær algengustu.